Byggingavöruverslun á lóð sunnan Aðalgötu?
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt samning milli Reykjanesbæjar og Smáragarðs ehf. fyrir sitt leyti og hefur skipulagsfulltrúa bæjarins verið falið að vinna málið áfram.
Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar fyrir jól var tekið fyrir erindi þar sem óskað er eftir lóð á svæði sunnan Aðalgötu sem skilgreint er í aðalskipulagi sem VÞ2. Á þessu svæði eru m.a. Flugvellir, þar sem ný slökkvistöð rís í Reykjanesbæ. Svæðið er nefnt þróunarsvæði við Reykjanesbraut í gögnum ráðsins.
Smáragarður ehf. óskaði með bréfi dagsettu 29. nóvember 2019 eftir heimild til að þróa reit sem skilgreindur er í aðalskipulagi sem VÞ2. Á svæðinu verði tvær lóðir þar sem á aðra þeirra komi byggingavöruverslun. Skipulagsfulltrúi lagði fram og kynnti drög að samkomulagi Smáragarðs ehf. og Reykjanesbæjar, sem ráðið samþykkti.
Upphaf Smáragarðs ehf. sem fasteignafélags má rekja til ársins 2002 þegar fasteignir BYKO voru teknar út úr rekstri BYKO og settar í sér félag, Smáragarð.